Ferill 1006. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2155  —  1006. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um kostnað við leiðtogafund Evrópuráðsins.


     1.      Hver er áætlaður heildarkostnaður ríkissjóðs og annarra opinberra aðila við leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík 16.–17. maí næstkomandi?
    Leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn í Hörpu 16. og 17. maí. Samkvæmt sameiginlegu minnisblaði forsætis-, dómsmála- og utanríkisráðuneytis sem lagt var fyrir ríkisstjórn 31. mars sl. var áætlaður heildarkostnaður við fundinn um 2 milljarðar kr. Miðað við fyrirliggjandi áætlanir, móttekjur og væntanlega reikninga frá birgjum og þjónustuaðilum eru allar líkur á að sú áætlun standist. Endanlegur raunkostnaður mun þó liggja fyrir á næstu vikum.

     2.      Hvernig skiptist kostnaðurinn á milli opinberra aðila og á milli verkþátta, svo sem öryggisgæslu, skipulagningar o.s.frv.?
    Ráðuneytið leiddi undirbúningsvinnu í samstarfi við forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, embætti ríkislögreglustjóra, Isavia, önnur ráðuneyti og stofnanir.
    Í kostnaðaráætlun lögreglu frá 9. mars var gert ráð fyrir að helstu útgjaldaliðir yrðu eftirfarandi:
     a.      Undirbúnings- og skipulagsvinna að undanskildum þjálfunarkostnaði: 240 millj. kr.
     b.      Þjálfunarkostnaður: 159 millj. kr.
     c.      Kaup og leiga á búnaði, þ.m.t. tækni- og hugbúnaður: 380 millj. kr.
     d.      Öryggisgæsla: 612 millj. kr.
    Helstu kostnaðarliðir ráðuneytisins samkvæmt áætlun voru eftirtaldir:
     a.      Kostnaður við umgjörð fundarins: 165 millj. kr.
     b.      Laun og annar kostnaður vegna þess starfsfólks Stjórnarráðsins sem kom að undirbúningi og framkvæmd fundarins, þ.m.t. öryggisvottanir: Alls um 100 millj. kr.
     c.      Samgöngur: 82 millj. kr.
     d.      Kostnaður við leigu og kaup á nauðsynlegum búnaði, m.a. vegna túlkaþjónustu: Um 67 millj. kr.
     e.      Önnur aðkeypt þjónusta, þ.m.t. útsendingarkostnaður, listamenn og prentun: Um 58 millj. kr.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið fékk í aðdraganda leiðtogafundarins gerði Isavia ráð fyrir að samanlagður heildarkostnaður á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli næmi um 25 millj. kr.
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að kostnaður hafi fallið á aðra opinbera aðila vegna leiðtogafundarins. Ítrekað skal að endanlegur raunkostnaður liggur ekki fyrir að svo stöddu.
    Alls fóru sjö klukkustundir í að taka þetta svar saman.